Frú Eva

Monday, March 20, 2006

Ráðstefnur í röðum

Í dag fór ég á enn eina ráðstefnuna um fjölmenningu. Hún var í Norræna húsinu í 3 klst. og fór öll fram á dönsku. Ég mátti hafa mig alla við að reyna að skilja þá fimm fyrirlesara sem þarna tóku til máls og mátti litlu muna að ég missti allt dótið mitt í gólfið þegar ég náði mér í kríu eftir að svefninn náði yfirhöndinni yfir athyglina. Það kom svosem ekki margt nýtt fram þarna en vakti mann til umhugsunar um margt sem hafði legið í dvala. Gamla samvinnuheitiðsem ég lærði fyrir rúmum 40 árum um að margar hendur vinni létt verk sannar sig enn og aftur. Við vitum ósköp vel að það er ekki hægt að gera samfélagið okkar fjölmenningarlegt nema allir leggist á eitt. Reyndar sagði Gestur Guðmundsson að Ísland hefði alltaf verið fjölmenningarlegt. Hingað hefðu komið franskir sjómenn sem hefði verið tekið svo vel á móti að þeir skyldu eftir börn í maga, Danir ríktu hér lengi og ekki mætti gleyma Jóni Indíafara sem kom heim með fjölbreytta menningu, Tyrkja-Guddu og fleirum. Þarna var einnig rætt um hversu lítið umburðarlynd við erum gagnvart því fólki sem er að reyna að tala íslensku. Ef hún er ekki fullkomin verðum við mjög gagnrýnin, jafnvel svo að við viljum ekki leyfa viðkomandi að tala í útvarp allra landsmanna (er það bara útvarp sumra landsmanna? Bara að pæla).
Jamm svo mörg voru þau orð.
Þó að það hafi verið gott að rifja upp dönskuna og alltaf hlýjar hún manni svolítið þá var þetta dálítið góður skammtur í bili.

Wednesday, March 08, 2006

Klukk

Auðvitað tók ég áskoruninni - ekki gagn - bara gaman.

4 störf sem ég hef unnið um ævina
1. Grunnskólakennari
2. Skrifstofustjóri Félags ísl. sjúkraþjálfara
3. Fræðslufulltrúi Sambands ísl. bankamanna
4. Deildarstjóri Verðbréfaviðskipta Samvinnubankans

4 bíómyndir sem ég get horft á aftur og aftur
1. Horfi sjaldan eða aldrei aftur á bíómyndir
en til að nefna einhverjar:
1. Pretty Woman
2. Bridget Jones Diary


4 staðir sem ég hef búið á
1. Ásgarðsvegur á Húsavík
2. Álfheimar
3. Hofteigur
4. Maríubakki í Breiðholti
4.
4 sjónvarpsþættir sem mér líkar
1. LOST
2. Íslenska Idol
3. Spaugstofan
4. Survivor.

4 síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg
1. Google.com
2. khi.is
3. Pósturinn í Austurbæjarskóla
4. ruv.is

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum
1. Sumarbústaðurinn í Rangárþingi
2. Flórída
3. Ungverjaland
4. Portúgal

4 matarkyns sem ég held upp á
1. Fiskibollurnar hennar mömmu
2. Íslensk kjötsúpa
3. Súkkulaði í hvaða mynd sem er
4. Emmessís

4 staðir sem ég vildi heldur vera á núna
1. Í Evru
2. Í Flórída hjá barnabörnunum
3. Með allri fjölskyldunni minni á sólarströnd á Ítalíu
4. Á skipi á siglingu um heimsins höf

4 bloggarar sem ég skora á að svara þessari könnun
Pass

Tuesday, March 07, 2006

Trjárækt og sumarblóm

Þar sem hluti helgarinnar fór í að prikla stjúpum varð mér hugsað til trjáplantnanna sem við höfum verið að pota niður undanfarin sex ár. Vegna anna höfum við ekki komist í sumarhúsið til þess að kanna hvernig gróðurinn kemur út úr þessum sveiflum í veðurfarinu. Það leiðir aftur hugann að því hvernig börn umgangast gróður og þá sérstaklega trjágróður. Við skólana í Reykjavík hefur verið plantað trjám sem víðast hvar hafa ekki náð mikilli hæð vegna þess að skólabörnin eru að ná sér í greinar til þess að skylmast með eða berja hvert annað. Stundum hef ég gengið að þeim og spurt hvers vegna þau murki svona lífið úr trjánum. Svar: Átt þú eitthvað í þessum trjám? -Já, við eigum þau öll saman. Þau eru sett niður svo við getum öll notið þeirra. Gerið þið þetta við trén í garðinum heima hjá ykkur? Svar: Það eru allt öðruvísi tré!
Jamm, svo mörg voru þau orð.
Létt dæmi: Í sexhunduð nemenda skóla fer fjórðungur nemenda að ná sér í grein í frímínútunum af því að hinir gera það. Hvað verða mörg tré án greina að vori?
Ég á mér þá ósk að foreldrar tali um það við börnin sín hvers vegna verið er að fegra borgina og setja niður tré og blóm.

Tuesday, February 28, 2006

Menntastofnun eða uppeldisstofnun

Hvað eru skólarnir orðnir í dag? Þar sem frú Eva er nú nýbyrjuð á þessum starfsvettvangi og langt síðan hún hefur átt börn í grunnskóla sér hún alveg nýja hlið á veröldinni. Það hefur mikið verið talað um það við kaffiborðin, í saumaklúbbunum, í strætó og undir húsveggjum hvað mikið vantar á að börn og unglingar séu upp alin, þeim kenndir fallegir siðir og hvað séu góð gildi í lífinu. Kennarar, þetta umburðarlynda hugsjónafólk fer venjulega í varnarstöðu og segir að þetta séu nú bara fámennur hávær hópur barna sem hegði sér illa. Upp til hópa séu börnin kurteis. Ég keypti það nú ekki alveg áður en ég fór að kenna og heldur ekki nú. Jú mörg börn eru kurteis og vel upp alin, en upp til hópa eru þau hávaðasöm og yfirgangssöm. Hvað má kennari t.d. gera við barn sem gerir aldrei það sem það er beðið um, hegðar sér eins og það vill, þagnar aldrei í tímum og er uppástöndugt við kennarann? Akkúrat, ekkert, bara vera umburðarlyndur og brosa. Kennarinn getur átt á hættu að missa vinnuna ef hann tekur á barninu eða byrstir sig vegna þess að rétturinn er allur barnsins megin. Byrstir sig já, það var kvartað yfir einum kennara vegna þess að hann talaði svo hátt. Það er vinsælt að tala um að kæra (eins og í amerísku myndunum sem horft er á í sjónvarpinu). Hvers konar stofnun sitjum við þá uppi með - uppeldisstofnun? Það er ekki tími til að kenna fræðigreinar vegna þess að mikill tími fer í alls konar uppeldisleg atriði sem ættu að fara fram á heimilunum. Ég er ekki að kenna í almennum bekk og er ekki að skrifa þetta í neinu fýlukasti. Þetta er einfaldlega ekki eins og það ætti að vera. Eða hvað?
Skólinn er á að vísu að vera hvorutveggja uppeldis- og menntastofnun en ég held að hann sé að verða eingöngu uppeldisstofnun. Það er mín ósk að uppeldi fari meira fram hjá foreldrum inn á heimilunum og skólinn verði menntastofnun sem sér um að fræða börnin.

Sunday, February 26, 2006

Annasöm helgi

Um síðustu helgi var á vegum Menntasviðs Reykjavíkurborgar sýning í Ráðhúsi Reykjavíkur sem nefnd var Skóli á nýrri öld. Þar voru skólarnir í borginni að kynna starfsemi sína og nemendur með ýmis atriði á sviði. Þar stóð ég tvær vaktir fyrir Austurbæjarskóla á föstudag og sunnudag. Þessa helgi 23. - 26. febrúar var vetrarhátíð í Reykjavík. Allmargt var í boði og m.a. voru nokkrir nemenda minna að sýna dans í Sundhöll Reykjavíkur á föstudag. Þangað fór ég, sat þar í eina tvo tíma og tók nokkrar myndir af börnunum. Á laugardag fórum við kl. 9 í gönguferð með Gunnari, Sæmundi, Halla og Ingu meðfram Hengladalsá frá Hellisheiði að skátaskálunum. Ferðin tók í allt 4½ klst. í frábærlega góðu veðri. Þar sem við vorum upp á miðri heiði fengum við SMS-skilaboð um að við værum boðin í mat til Ingu og Danna í sumarbústaðnum þeirra um kvöldið ásamt fleira fólki. Það var yndislegt kvöld í góðra vina hópi. Þar sem við komum ekki heim fyrr en um kl. fjögur slepptum við því að fara í gönguferð um Ægissíðu með Laufsfélögum. Vetrarhátíðin hélt áfram í Reykjavík með Food and fun og fleiru skemmtilegu. Á síðasta degi vetrarhátíðar sunnudaginn 26. febrúar var Þjóðahátíð haldin á vegum Alþjóðahúss með stuðningi Landsvirkjunar í gamla Blómavalshúsinu við Sigtún. Þetta var frábær sýning frá ótal mörgum löndum, bæði básar með smakk, kynningu og sölu og alls konar atriði á sviði. Frá kl. 12-17 var sýningin Heimsdagur barna haldin í Laugalækjarskóla. Hann var fjölmenningarhátíð fyrir börn á aldrinum 6 til 12 ára þar sem þeim var boðið upp á listasmiðjur um allan skóla. Lanka hafði skreytt skólann með pappírsklippi. Fjölbreytt dagskrá skemmtiatriða var á sviði. Þar á meðal var söngatriði frá Austurbæjarskóla. Ég skrapp þangað í klukkustund til að hlýða á sönginn og skoða skólann. Áður en ég fór setti ég rjóma í allnokkrar bollur og súkkulaði ofan á ef ske kynni að einhver kæmi í kaffi og viti menn, það komu gestir um kaffileytið rétt eftir að ég koma frá Laugalækjarskóla. Um kvöldið var miðasala í Laufinu vegna árshátíðar og ferðalags í sumar. Þar hittum við góða vini og spjölluðum yfir kaffibolla.

Wednesday, February 22, 2006

Haldið af stað

Hér byrjar unga bankakonan, sem varð síðar eiginkona, mamma, stúdent, kennaranemi og amma að blogga.

Jæja, þá er þessi dagur í vinnunni á enda. Miðvikudagar eru eitthvað svo ótrúlega langir og erfiðir.

Monday, February 20, 2006

Takk kæri tengdasonur

Takk fyrir að vera til staðar fyrir mig svo ég geti komið þessari bloggsíðu af stað.
Nú verða fingurnir friðlausir.